GERÐUR

GERÐUR YFIRLIT.jpg

Ný grunnsýning á verkum Gerðar Helgadóttur opnar á neðri hæð safnsins í janúar 2020. Sýningin er framhald af yfirlitssýningu sem haldin var í 2018 þar sem 1400 verk hennar í safneign Gerðarsafns voru höfð til grundvallar. Sköpunarkraftur og tilraunastarfsemi Gerðar er leiðarstef í starfsemi Gerðarsafns sem einnig endurspeglar stöðu þess sem eina listasafn landsins stofnað til heiðurs listakonu.

Á sýningunni GERÐUR er sjónum beint að járnverkum Gerðar frá 6. áratugnum. Gerður var fyrsti íslenski listamaðurinn til að nota járn í sinni list og var frumkvöðull þrívíðrar abstraktlistar hérlendis.

Í fyrstu járnverkum Gerðar notaði hún svartlakkaðar járnþynnur sem hún mótaði í geómetrísk form sem hvelfast um rýmið. Síðar vann hún nær eingöngu verk úr hárfínum járnvírum sem mynduðu teikningu í rýminu. Þau verk höfðu gjarnan vísanir í kosmískar eða dulspekilegar kenningar. Gerður var afkastamikill listamaður og voru verk hennar í stöðugri þróun og mótuðust af breiðu áhugasviði hennar. Hún lést langt fyrir aldur fram aðeins 47 ára gömul. Gerður átti margt ógert þótt hún hefði innan við fimmtugt afrekað að vinna sér sess sem einn helsti myndhöggvari þjóðarinnar á 20. öld. Sýningin mun standa til janúar 2024, þó með uppbroti tvisvar á ári.

Sýningin GERÐUR er í nánu samtali við fræðslurými Gerðarsafns, Stúdíó Gerðar, þar sem gestum gefst færi á að fræðast og skapa myndlist. Stúdíó Gerðar er einnig vettvangur fjölbreyttra viðburða sem haldnir eru í tengslum við yfirstandandi sýningar.

Í tengslum við sýninguna munu listamenn vera með tímabundna opna vinnustofu innan safnsins. Þórdís Erla Zoëga verður fyrsti listamaðurinn í lifandi vinnustofu Gerðarsafns. Hún mun vinna að gerð nýrrar mottu, undir áhrifum frá Gerði Helgadóttur, sem frumsýnd verður á Hönnunarmars 2020.