Sex leiðbeiningaverk

Listin að vera heima

Á þessu ári höfum við þurft að tileinka okkur listina að vera heima. Heima með fjölskyldunni, ein heima, heima að vinna og heima með Helga Björns.
Í tilraun til að færa almenningi listsköpun á furðulegum tímum fékk Gerðarsafn sex listamenn til að búa til ný leiðbeiningaverk. Verkin birtust fyrst í jóladagatali Menningarhúsanna og höfum við nú safnað þeim saman í einn jólapakka af list sem hægt er að framkvæma heima í jólafríinu!
Endilega deilið útkomunni af listköpun ykkar á samfélagsmiðlum og taggið Gerðarsafn #gerðarsafn #listinadveraheima

Opnunartími og sóttvarnir

Opið á Gerðarsafni

Gerðarsafn er opið alla daga kl. 10-17.
Samkvæmt tilmælum almannavarna er ekki boðið upp á kubba, liti o.þ.h. í fræðslurými eins og er.

Safnbúð Gerðarsafns er opin á sama tíma og safnið. Þar eru m.a. til sölu falleg eftirprent af verkum Gerðar Helgadóttur, Valgerðar Briem og Barböru Árnason, auk fallegrar hönnunarvöru, bóka, tréleikfanga o.fl.

Grímuskylda er á safninu og fjöldatakmörkun miðast við 10 gesti hverju sinni.
Við erum öll almannavarnir!

Gerðarverðlaunin 2020

Gerðarsafn stendur að nýjum myndlistarverðlaunum til stuðnings við höggmyndalist hérlendis. Verðlaunin eru til heiðurs Gerði Helgadóttur myndhöggvara og eru veitt árlega framúrskarandi myndlistarmanni sem vinnur í skúlptúr og rýmisverk.
Gerður Helgadóttir (1928-1975) tók fyrst íslenskra kvenna forystu í höggmyndalist og var brautryðjandi í þrívíðri abstraktlist hérlendis. Sköpunarkraftur og tilraunastarfsemi Gerðar er leiðarstefið í starfi Gerðarsafns þar sem verk hennar og arfleifð eru virkjuð í samtali við samtímalist og hugðarefni samtímans.
Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn 17. desember 2020.