Sólarslóð

Sólarslóð sýnir hreyfingu sólarinnar yfir eins árs tímabil með tólf brotalínum. Þær teikna upp hin óskýru mörk á milli sólarljóssins og skuggans sem veggurinn á Hálsatorgi varpar á sjálfan sig. Hver brotalína áætlar hæstu stöðu sólar á 21.degi hvers mánaðar ársins. Línan er máluð með hvítri vegamálningu sem blönduð er örsmáum glerperlum. Þegar sólin skín á veggjunum virkjast listaverkið og perlurnar endurspegla hin síbreytilegu sjónarhorn sem myndast á milli sólarinnar og áhorfandans. Þegar sólar nýtur ekki við, minnir verkið okkur á síendurtekna hringrás sólarinnar. Á sama tíma vísar hin hvíta sindrandi vegamálning til annarskonar hryns; umferðarinnar sem flæðir undir Hálsatorg, í kringum brúna og inn í hversdaginn.