Stúdíó Gerðar

Upplifum og sköpum saman í Gerðarsafni

Stúdíó Gerðar er opið fræðslurými þar sem börnum, fjölskyldum og öðrum gestum gefst færi á að njóta samverustunda, fræðast og skapa saman.

Í Stúdíói Gerðar eru haldnar fjölbreyttar smiðjur í tengslum við sýningar safnsins og sem hluti af fjölskyldustundum Menningarhúsanna í Kópavogi. Þar er einnig tekið á móti skólahópum í tengslum við leiðsagnir og boðið upp á styttri smiðjur sem miða að aldri og getu hvers hóps fyrir sig.

Fræðslurýmið Stúdíó Gerðar er skreytt með klippimyndum eftir 3-5 ára krakka úr leikskólanum Marbakka. Unnu þau klippimyndir í samtali við verk Gerðar Helgadóttur. Rýmið er hannað af Arnari Frey Guðmundssyni og Friðriki Steini Friðrikssyni í samtali við grunnsýningu á verkum Gerðar Helgadóttur sem er við hlið fræðslurýmisins. Endurhönnun fræðslurýmisins er styrkt af Öndvegisstyrk Safnasjóðs.


Frítt er fyrir börn á safnið og hafa margir foreldrar nýtt sér árskort Gerðarsafns til að koma reglulega í heimsókn og njóta þess skemmtilega fræðslustarfs sem boðið er uppá. Árskort á safnið kostar 2500 kr. 

Smiðjukassar

Smiðjukassar standa safngestum til boða í móttöku safnsins, til afnota á meðan heimsókn stendur, og fylgir frítt með hverjum greiddum aðgangi. Árskorthafar geta nálgast smiðjukassa í hverri heimsókn á safnið. Í smiðjukassanum er efniviður til listsköpunar og geta gestir notið samverustunda í Stúdíói Gerðar með skapandi verkefni í höndunum.

kubbar-planta.jpg

Skólaheimsóknir

Mikil áhersla hefur verið lögð á fræðslu í Gerðarsafni og Menningarhúsunum í Kópavogi síðastliðin ár og hefur heimsóknum skólabarna fjölgað gríðarlega. Börn af öllum skólastigum komu í fræðslu á safninu árið 2019. Heildarfjöldi nema í skipulögðum heimsóknum á safnið árið 2019 var 1444. Auk skólaheimsókna hafa viðburðirnir fjölskyldustundir á laugardögum og Menning á miðvikudögum fest sig í sessi, þar sem boðið er upp á ókeypis vikulegar smiðjur, leiðsagnir, tónleika og fyrirlestra í öllum Menningarhúsum Kópavogs.

Leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og háskólar

Boðið er upp á sérsniðnar leiðsagnir og heimsóknir í Gerðarsafn fyrir alla aldurshópa skólastiganna. Skólahópar koma í leiðsagnir um yfirstandandi sýningu safnsins þar sem lögð er áhersla á samtal og túlkun nemenda á verkunum. Fyrir áhugasama hópa, sérstaklega þá yngri, hefur einnig verið boðið upp á sérsniðnar smiðjur í Stúdíói Gerðar í tengslum við sýningarnar hverju sinni.

DSCF3454.jpg